Færsluflokkur: Lífstíll

Ef það sé jazz...

Ef það sé jazz... sagði góður maður einhverju sinni og útskýrði svo ýmis náttúrulögmál markaðarins sem höfðu með að gera aðsókn að tónleikum og plötusölu.  Þetta var svona heitapottsspeki um hvernig neytendur höguðu sér þegar jazz var annars vegar.

Í nítjánda sinn blæs Jazzhátíð Reykjavíkur til sóknar í þeirri von að geta smitað borgarbúa af þessari veiru sem öllum er svo holl. Hún hagar sér eins og flensuskítur, þeas maður getur orðið dáldið skrítinn í hausnum, en þegar henni lýkur líður manni betur og hefur búið til heilmikinn tolerans fyrir skrítinni og skemmtilegri músík sem neitar að láta skilgreina sig. Mannbætandi! Segi og skrifa. 

Hátíðin sem hefst núna á þriðjudaginn er sett saman með það að markmiði að í borginni verði festivalstemmning.  Jazz í hádeginu, eftirmiðdaginn og á kvöldin fram á nótt.  Ekkert á morgnana, fyrirgefiði. Það er hægt að ná næstum öllu sem í boði er, en til þess þarf reyndar að klippa framan eða aftan af einstaka tónleikum.  En það er vitað að nokkrir eitilharðir áhugamenn vilja ekki missa af neinu og því er það alltaf haft að leiðarljósi að hægt sé að ná öllum listamönnunum.

Hátíðin verður formlega sett í Iðnó á þriðjudagskvöld kl 20. Ókeypis aðgangur á meðan húsrúm leyfir. Þeir sem ekki geta beðið fá tækifæri til að þjófstarta með Agnari Má Magnússyni píanóleikara sem spilar opinberan upptakt Jazzhátíðar Reykjavíkur í Vonarsalnum í Efstaleiti ásamt Ben Street og Bill Stewart þennan sama dag kl 18.  Frábærir New York spilarar af bestu sort.  Kynnið ykkur endilega dagskrána á fína vefnum okkar. Góða skemmtun!


Þrír, tveir...

...og svo kemur óumflýjanlega: Einn!  Ekki fyrr en á miðvikudag þó að þjófstartið sé þegar ákveðið annað kvöld kl 21.  Það verður án efa ógleymanleg stund.  Leynigestir af tónlistarsviðinu hafa eihverntíma verið kallaðir Sniglaband jazzins.  Ég kýs að kalla þá Snillaband jazzins, en það kemur í ljós anað kvöld um hverja ræðir.  

Borgarstjóri ætlar að setja fyrir okkur hátíðina og svo fara allir heim og hvíla sig vel fyrir næstu fjóra daga.  Það verður að gera þetta skynsamlega.  Það er skynsemin sem vantar í þann hluta næturlífsins sem er með þetta vesen í miðbænum.  Örfáir gaurar sem ætla að skemmta sér svo rosalega að vonbrigðin verða ennþá rosalegri þegar kemur í ljós að það er ekkert gaman.   Það er nefnilega svo lítið varið í að vera bara fullur.  Að vera fullur er eins og meðlæti eða skartgripur.  Punkturinn yfir i-ið.  Eitt sér er það einhvernveginn bara glatað.  Eins og að borða bara kartöflur eða vera bara með hálsmen, en ekki í neinu öðru.  Kannski ekki vonlaust, en í það minnsta vandmeðfarið.  Semsagt.  Jazzhátíð Reykjavíkur mælir með því að ganga um gleðinnar dyr á því tempói sem hverjum og einum hæfir.  Og þá helst um þær dyr sem ganga að atburðum hátíðarinnar. 

Ég gleymdi hreinlega að blogga í gærkvöldi og nú er kominn mánudagsmorgunn og Siggi Flosa í blöðunum.  Lognið á undan storminum.  Trommur í fjarska sem færast nær...og nær... og nær... og svo kemur bassasóló.  Sem minnir mig á það að nú tekur við þetta áþreifanlega: redda bassamagnara, redda trommusetti, redda svörtu handklæði og sódavatni sem er búið að hrista helminginn af kolsýrunni úr....bara þessa einföldu hluti sem allir listamenn þurfa að ganga að sem vísum.

 

 


Fjórir á gólfinu

Þeir kölluðu það fjóra á gólfinu gömlu mennirnir sem þurftu að berja út bassatrommuna á öllum fjórum slögum taktsins í foxtrottinum.  Þetta gerðu þeir til þess að hjálpa kontrabassanum að ná í gegn á böllunum.  Seinni tíma meistarar þessa stíls sem gerðu þetta að listgrein voru þó nokkrir og fremstur meðal jafningja var Joe Morello sem sló snjóhvítan taktinn í tímatökunni hjá Dave Brubeck.  

Þessi litla fróðleiksperla er í boði Jazzhátíðar Reykjavíkur í tilefni þess að fjórir dagar eru þangað til hátíðin hefst.  Þú sem ert að lesa þetta ert boðinn á setningu hátíðarinnar á Domo bar við Þingholtsstræti 5 nk þriðjudagskvöld kl 21, en þá ætlar borgarstjóri að setja hátíðina.  Lifandi jazz og svellkaldur Premium frá Ölgerðinni. 

 Laugardagurinn var til lukku í Jazzheimum en talsverð pressa var tileinkuð jazzinum í dag og svo var verið að spila í verslunum Eymundsson og á Jómfrúnni.  Við dreifðum dagskrám og buðum í partíið, en það var gaman að sjá eftirvæntingarglampann í augum stórsveitarliða þar sem þeir renndu sér í gegnum þetta gamla og góða með einbeitingu sem sá einn nær sem á vísan ákavítissjúss og rauðsprettusneið.  Andrea , Bjössi Thor og Jón Rafnsson stóðu svo vaktina í bókabúðunum og vöktu athygli á eigin geisladiski og væntanlegri jazzhátíð.  

Svíngídígíngídísvíngídígingídísvíngídígíngídísvíngídígong.


Fimm mínútur í

Undanfarnar vikur hefur oft verið slegið fram frasanum "korter í".  Það þýðir ekkert að gera þetta  korter í.  Þeir sem koma svona korter í fá lítið eða ekkert af því sem þeir biðja um.  Korter í hátíð.  Korter í þetta, korter í hitt.  En nú er ekkert korter í.  Það eru sko fimm mínútur í.  Og þá fara nú hlutirnir að gerast.  Þetta var dagur fimm mínútnanna.  Fyrst var auðvitað hjólatúrinn.  Fimm mínútur í sjö var Kjartan mættur og við tókum hjólhestana til kostanna.  Við höfum skírt túrana eftir leiðunum sem við förum.  Þeir hafa verið stuttir undanfarna daga og þessi fékk nafnið "Sollur special" þegar við hjóluðum niður Bankastrætið.  Það var nú dáldið kosmópólítan og smart að sjá að kaffihúsin voru opin. 

Kjartan fór heim og kom stelpunum í skólann en ég gerði útvarpsauglýsingar sem ég vona að hafi heyrst.  Svo tók ég stöðuna á prentverkinu sem var allt komið á góðan rekspöl.  Valli Plakat kominn í málið og bæklingurinn á leiðinni.  Boðskort á setninguna tilbúið og ekkert annað í stöðunni en dreifa því á sem flesta vini jazzhátíðarinnar fyrir partíið nk þriðjudagskvöld á Domo.  Ölgerðin Egill Skallagrímsson ætlar að splæsa.  

Ríkisútvarpið var áfangastaðurinn í hádeginu en við Lana gátum borið saman bækur okkar um væntanlegar útsendingar frá tónleikum Jazzhátíðar.  Svo tók við þátturinn hennar Hönnu G þar sem glöggir hlustendur sáu við okkur og unnu miða á hátíðina. 

Bjarni Rúnar tónmeistari var á svæðinu og eins og alltaf þegar góðir menn verða á vegi manns þá varð það til að við komumst að þeirri niðurstöðu að Uri þyrfti að fá almennilegan flygil til að spila á.  Við ætlum að nota stóra útvarpsSteinwayinn sem situr á Markúsartorginu og bíður eftir að verða hleypt á skeið.  

Ég læddist í 12 tóna og heyrði Ólöfu Arnalds syngja nokkur lög og bókaði Lárus til að kynna afurðir sínar í Ráðhúsinu þann 1. sept.  Hitti líka Ása (í Smekkleysu) í Máli og Menningu og hann ætlaði að senda einhvern frá sér á sama stað.  Spessi var að gefa út nýja ljósmyndabók og var að kynna hana í búðinni.  Jólagjöfin í ár.  

Hún liggur vel í manni Jazzhátíðin.  Eini kvíðapunkturinn er hvort hin alræmda kvikmynd um Monk nær til landsins í tæka tíð.  Hún á að vera farin frá London, en ég trúi því þegar ég sit í Tjarnarbíói og horfi á hana.  

Hlaupanótan spilaði jazz og sagði frá af mikilli list.  Allt í fína þar og undir kvöldmat spannst umræða á smessi um að networka Uri Caine inn í músíkmafíuna hérlendis.  Hringdi í hann.  Hann var í stuði! 

Svíngdíngeríngdíngeríng.


Sex selur...

...hef ég heyrt fleygt.  Ekki síst þessa síðustu daga þegar við höfum verið að vinna í að hámarka afköst auglýsingapeninganna fyrir Jazzhátíð Reykjavíkur.  Hvort það selur að einungis eru sex dagar í hátíðina á eftir að koma í ljós þegar gróðanum verður skipt því að það verður auðvitað boðið upp á ótrúlega sexí tónlist dagana fjóra frá 29. ágúst nk til 1. sept.  Reyndar hef ég fundið það eftir að ég fékk Antibalas plöturnar í póstinum að það er ekki laust við að maður verði dáldið ( meira ) sexí við að hlusta á þær.  Þetta er kjarngott og seiðandi afróbít sem á örugglega eftir að hitta á mark á Nasa í næstu viku.  

Er það ekki ótrúlegt annars að ekki skuli vera meira úrval af Antibalas og Jimi Tenor í plötubúðunum í Reykjavík þegar legið hefur fyrir vikum saman að þessir frábæru listamenn séu á leið hingað.  Ég náði í síðasta eintakið af High Plains plötunni hans Jimi Tenor í Skífunni og ekkert var til með öðrum gestum Jazzhátíðarinnar þetta árið.   Guði sé lof fyrir Amazon.com. Nú getum við farið að dæla þessu út um öldur ljósvakans svo hinn almenni útvarpshlustandi missi ekki af tækifærinu til að heyra alvöru músík leikna af alvöru fólki.  

Dagurinn var hinn ágætasti og prentvélarnar eru farnar að mala og plakötin á leið upp á veggi og í sjónlínur úti um allan bæ.   Selur sexið?  Ekki gott að segja.  Við spyrjum að leikslokum þegar ip tölurnar eru komnar í hús og allt þetta kynþokkafulla fólk hefur sungið sitt síðasta þetta árið.


Vika í downbeat

Um þetta leyti eftir rétta viku verður hálfnaður fyrsti skammtur af lögunum hans Jóns Múla sem Eyþór Gunnarsson er að undirbúa fyrir tónleika á Domo.  Það verða líka nýbúnir tónleikar Uri Caine í Austurbæ.  Fólk verður farið að yfirbjóða í miða á tónleika Eivarar og Stórsveitar Reykjavíkur kvöldið eftir, og allskonar fólk verður í talhólfinu mínu að reyna að grenja út miða á atburði Jazzhátíðarinnar.  

Ég veit auðvitað ekkert um það hvort þetta heldur svona áfram, en miðasalan fer vel af stað og viðbrögðin eru umfram væntingar enn sem komið er.  Vonandi er maður ekki að kalla yfir þetta einhverja bölvun með því að nefna það á nafn.  Það má ekki segja nafn Macbeths í leikhúsinu.  Hver ætli sé samsvörun hans á jazzklúbbnum.  Morðóð skáldsagnapersóna.  Mér dettur helst í hug kallinn sem skaut Kenny Dorham.  En ég veit ekki hvað hann heitir og svo var hann víst alvöru persóna.  Því miður.  

En við erum með listamenn af holdi og blóði sem betur fer, og eins og þegar hefur verið auglýst verður öll tónlist handspiluð. Eftir því sem næst verður komist er enginn listamannanna með undirleik af geisladiski.  Svo benti Sammi á það í dag að þetta væri fyrsta reyklausa jazzhátíðin á Íslandi, ef ekki í heiminum.  

Það skal upplýst hér að meðal þeirra sem koma fram á tónleikum í Ráðhúsinu á lokadegi hátíðarinnar eru Hilmar Jensson sem ætlar að frumflytja músík sem hann hefur verið að semja fyrir væntanlega Kínaferð.  Einnig munu Óskar og Ómar Guðjónssynir tefla fram eigin hljómsveitum og spila nýja músík.  Ekki er loku fyrir það skotið að Ingibjörg systir þeirri verði meðal gesta.  Svo eru einhverjir leynigestir á skipuriti þeirra tónleika sem verða ókeypis auk þess að gestum og gangandi verður boðið upp á veitingar í boði ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar.  

 

 

 


8 dagar í Jazzhátíð

Ég gladdist fram eftir degi yfir því að Ölgerð Egils Skallagrímssonar kom inn í Jazzhátíðina með okkur.  Ég held svei mér þá að ég skelli í mig einum svellköldum Premium í kvöld í tilefni þess.  Svo auðvitað Kristal. 

Og það er ekki allt því að Eymundsson, þið vitið Penninn/Eymundsson ( svona eins og Bond, James Bond ) skellti sér líka í slaginn svo að það verður jazzað í bókabúðum bæði í Austurstræti og við Laugaveg á næstunni.  Ætli ég taki mér ekki bók í hönd með Premium-inum í kvöld og lesi um jazz.  Maður veit svo lítið um hann. 

Og þessi fáviska um jazzinn og tónlist yfirleitt leiðir hugann að því að ég átti einmitt stefnumót við tvær músíkalskar dömur í útvarpshúsinu fyrr í dag, en við Steinunn Birna Ragnarsdóttir ætlum að vera rosalega skemmtileg í spurningaleik um tónlist sem Arndís Björk Ásgeirsdóttir ætlar að stjórna á Rás 1 í vetur.  Við fórum semsagt í myndatöku útaf því.  Myndatöku fyrir útvarp!  En hafið ekki áhyggjur.  Það verða fleiri gestir og þeir vita alveg örugglega heilmikið um músík!

Svo fór ég niður á DOMO bar og bar saman bækur mínar við bækurnar hans Mána, sem er aðal þar.  Við verðum með setningu Jazzhátíðar hjá honum þriðjudagskvöld eftir viku.  Stutt og laggott tækifæri fyrir listamenn, fjölmiðla og styrktaraðila til að hittast og æsa hvorn annan upp fyrir hátíðina.

Þar fyrir utan var mikið pælt í hvaða blað fengi að birta fínu auglýsingarnar sem Edda og Haukur hja Forte eru búin að hanna.

 

 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband