Fimm mínútur í

Undanfarnar vikur hefur oft verið slegið fram frasanum "korter í".  Það þýðir ekkert að gera þetta  korter í.  Þeir sem koma svona korter í fá lítið eða ekkert af því sem þeir biðja um.  Korter í hátíð.  Korter í þetta, korter í hitt.  En nú er ekkert korter í.  Það eru sko fimm mínútur í.  Og þá fara nú hlutirnir að gerast.  Þetta var dagur fimm mínútnanna.  Fyrst var auðvitað hjólatúrinn.  Fimm mínútur í sjö var Kjartan mættur og við tókum hjólhestana til kostanna.  Við höfum skírt túrana eftir leiðunum sem við förum.  Þeir hafa verið stuttir undanfarna daga og þessi fékk nafnið "Sollur special" þegar við hjóluðum niður Bankastrætið.  Það var nú dáldið kosmópólítan og smart að sjá að kaffihúsin voru opin. 

Kjartan fór heim og kom stelpunum í skólann en ég gerði útvarpsauglýsingar sem ég vona að hafi heyrst.  Svo tók ég stöðuna á prentverkinu sem var allt komið á góðan rekspöl.  Valli Plakat kominn í málið og bæklingurinn á leiðinni.  Boðskort á setninguna tilbúið og ekkert annað í stöðunni en dreifa því á sem flesta vini jazzhátíðarinnar fyrir partíið nk þriðjudagskvöld á Domo.  Ölgerðin Egill Skallagrímsson ætlar að splæsa.  

Ríkisútvarpið var áfangastaðurinn í hádeginu en við Lana gátum borið saman bækur okkar um væntanlegar útsendingar frá tónleikum Jazzhátíðar.  Svo tók við þátturinn hennar Hönnu G þar sem glöggir hlustendur sáu við okkur og unnu miða á hátíðina. 

Bjarni Rúnar tónmeistari var á svæðinu og eins og alltaf þegar góðir menn verða á vegi manns þá varð það til að við komumst að þeirri niðurstöðu að Uri þyrfti að fá almennilegan flygil til að spila á.  Við ætlum að nota stóra útvarpsSteinwayinn sem situr á Markúsartorginu og bíður eftir að verða hleypt á skeið.  

Ég læddist í 12 tóna og heyrði Ólöfu Arnalds syngja nokkur lög og bókaði Lárus til að kynna afurðir sínar í Ráðhúsinu þann 1. sept.  Hitti líka Ása (í Smekkleysu) í Máli og Menningu og hann ætlaði að senda einhvern frá sér á sama stað.  Spessi var að gefa út nýja ljósmyndabók og var að kynna hana í búðinni.  Jólagjöfin í ár.  

Hún liggur vel í manni Jazzhátíðin.  Eini kvíðapunkturinn er hvort hin alræmda kvikmynd um Monk nær til landsins í tæka tíð.  Hún á að vera farin frá London, en ég trúi því þegar ég sit í Tjarnarbíói og horfi á hana.  

Hlaupanótan spilaði jazz og sagði frá af mikilli list.  Allt í fína þar og undir kvöldmat spannst umræða á smessi um að networka Uri Caine inn í músíkmafíuna hérlendis.  Hringdi í hann.  Hann var í stuði! 

Svíngdíngeríngdíngeríng.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband