Einn...

...voða vitlaus, hugsaði ég þegar ég rak augun á það aftan á Blaðinu að einhver bloggari væri að kvarta yfir miðaverði á Jazzhátíð.  "Hvaða heilvita maður borgar 21000 fyrir passa á alla atburði ?" var haft eftir honum.  Ekki þú hálfvitinn þinn, hugsaði ég, en sagði auðvitað ekkert því ég er framkvæmdastjóri hátíðarinnar og maður í minni stöðu getur ekki sagt svona við fólk sem kann ekki að lesa.  En ég finn enga aðra skýringu á þessum misskilningi.  Passinn er ekki einu sinni til sölu á tuttuguogeittþúsund.  Hann kostar tíuogfimm!  Það er málið.  Annars er þetta vonandi sá eini sem hefur ekki fattað plottið svo að það útaf fyrir sig er ágætis árangur.  

Gærdagurinn var klikkaður.  Ef ég hefði ekki hjólað einn hring með Kjartani hefði áreiðanlega þrotið súrefnið fyrir hádegi.  Það þurfti að koma út pössum og sækja miða.  Tala um Max Roach í Víðsjá og gera hlépakka fyrir Uri tónleikana með Lönu.  Síðan sótti ég Eivöru á flugvöllinn og á meðan hún kom sér fyrir þurfti að huga að aðstæðum á tónleikastöðum.  Síðan fór hún á æfingu með stórsveitinni og ég fór í viðtal á Rás 2, og náði þá þeim eftirsóknarverða áfanga að vera á báðum rásum samtímis, því Haukur var að senda út pistilinn um Max Roach á Gufunni.

Jazzhátíðin er byrjuð.  Hún hófst með ótrúlega skemmtilegu partíi á DOMO í gærkvöldi.  Þar lék hljómsveitin Jazz Festival All Stars, sem skipuð var Ómari, Helga Svavari, Valda Kolla, Ingimar og Samma.  Síðan bættust Haukur og Andrea og undir lokin Ragnheiður í hópinn.  Eivör söng með okkur Edda Lár og DJ Lucky sneri Blúnót plötum.  Kjartan Magnússon borgarfulltrúi setti hátíðina formlega  áður en þessi spontant jamsession tók við og við erum því komin í gang.  Ekki má heldur gleyma að fyrrverandi framkvæmdastjóri Friðrik Tehodorsson skvíbbaði Summertime með Allstars í lokin og hækkaði þarmeð umtalsvert viðmiðunarstuðul eftirmanna sinna í framkvæmd jazzhátíðar.  Hvílíkt stuð!

Í morgun kom svo Kristján bílstjóri úr Keflavík með Uri, Drew og Ben í bæinn og þeir eru komnir inn á hótel í miðbænum og safna kröftum fyrir kvöldið.  Austurbær kl 20.  Bíðer or bískver!

Jerry Bergonzi og Gerry konan hans eru líka komin og voru í partíinu í gærkvöldi.  Ákaflega sjarmerandi og skemmtilegt fólk.  Jerry er alsæll eftir æfinguna með Eyþóri og félögum og hlakkar til að skemmta á DOMO í kvöld.  

 Ekki gleyma bíóinu.  Tjarnarbíó klukkan fimm!  Monk - Straight No Chaser.  Í boði Jazzhátíðar. 

 Er það ekki dáldið góður dagur?  Bíó klukkan fimm, konsert með Uri klukkan átta, Múlinn á Múlanum  og Jerry Bergonzi klukkan tíu.  Og inn á milli upplyfting að eigin vali.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þakka þér fyrir að kalla mig hálfvita, Pétur Grétarsson, og koma þeirri ranghugmynd í höfuðið á fólkinu sem les bloggið þitt að ég kunni ekki að lesa, ég met það mikils.

Fyrst vil ég benda þér á eftirtalda vefslóð: http://midi.is/tonleikar/1/4889

Nú, eftir að þú hefur lesið það sem á þessari ágætu síðu finnst, vil ég byrja á því að fullvissa þig um að ég er læs maður og hvorki orð þín né vitleysisgangur breyta þeirri staðreynd.  Þarna las ég, í efstu línu miðaupplýsinga, og leiðréttu mig ef ég telst vera lesblindur hálfviti, "Passi, Stakir viðburðir, 21.000 kr."   Vá, ég get svo svarið að forsprakki hátíðarinnar hafi sagt á bloggi sínu að miðinn kosti ekki "tuttuguogeittþúsund krónur" ... hvaða lesblindi hálfviti sem er gæti lesið þessar upplýsingar og talið þær réttar, en þá væri hann auðvitað lesblindur hálfviti, afar rökrétt!

Ég sá einnig að þarna stóð "50% afsláttur er veittur pössum í forsölu til 27. ágúst (10.500 kr í stað 21.000 kr)."  -   En leiðréttu mig aftur ef ég hef ekki á réttu að standa, en er ekki kominn 29. ágúst?  Og þegar ég skrifa mitt lesblinda og hálfvitalega blogg, var þá ekki einmitt 28. ágúst?  Er ég er að fara á mis við upplýsingarnar sem miði.is gefur upp?

Viltu ekki hafa staðreyndirnar á hreinu, Pétur Grétarsson, áður en þú ferð að rakka niður trymblabræður þína í greinilegu pirringskasti vegna slæms umtals um þína ágætu Jazz Hátíð (einvörðungu fyrir snobbpakk og ríkisbubba)!

Maggi Trymbill (IP-tala skráð) 29.8.2007 kl. 16:40

2 identicon

Heyrðu félagi, það þýðir ekkert að vera að skjóta á fólk og kalla það hálfvita þegar það hefur rétt fyrir sér.

http://midi.is/tonleikar/1/4889

Skárra að vera með hlutina á hreinu þegar þú lætur eitthvað svona út úr þér! Þegar þetta birtist og þegar bloggið er skrifað, er afslátturinn genginn úr gildi, þannig miðinn kostar víst 21.000 krónur....

Vá talandi um að skjóta sig í fótinn! Og ef miðinn kostar í raun 10.500 og miði.is hefur vitlaust fyrir sér... kallaðu þá hálfvita, en ekki saklausa bloggara!

Guðmundur Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 29.8.2007 kl. 16:42

3 Smámynd: Haukur Hólmsteinsson

Spurning um að fá næst einhvern mann með viti til að vera framkvæmdarstjóra hátíðarinnar... kannski einhvern sem veit hvað miðaverðið verður.
...ég mæli með að lesa bloggið hans Magga aftur, það er víst góð og gild gagnrýni þar á hátt verðlag hátíðarinnar þinnar.

Haukur Hólmsteinsson, 29.8.2007 kl. 16:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband