Færsluflokkur: Trúmál og siðferði
19.8.2007 | 13:14
Minning um meistaratrommara
Þegar ég í hégóma mínum fór inn á moggabloggið til að sjá hvort fyrsta færslan mín hefði birst ólöskuð, rak ég augun í það að meistaratrommarinn Max Roach væri allur, 83 ára gamall. Max er einn af fimm trommurum jazzsögunnar sem ekki er hægt að gera upp á milli. Þeir sem eru ekki með Max á sínum topp fimm lista eru einfaldlega að missa af ótrúlega stórum hluta þeirrar merkilegu sögu. Hann var oftar en ekki sá sem hvatti áfram Dizzy og Bird þegar þeir voru að finna upp bophjólið í félagsskap sem taldi Bud Powell, Miles Davis og fleiri stórmenni sem óþarfi er að telja upp.
Ef mæla á með einhverju einstöku úr safni Max Roach þá man ég í svipinn eftir tónleikaupptöku með hljómsveit hans og Cliffords Brown frá París 1953. Svíngið á þeim Evróputúr er nægilegt til að núllstilla hvaða tréhest sem er til skilnings á hugtakinu. Max Roach var líka merkilegur leiðtogi í sínum hóp. Ávallt mikill reglumaður og fræg er sagan þegar hann lét Miles Davis skammast sín til að hætta að sulla í heróíni, en Max horfði beint inn í blóðhlaupin augu trompetleikarans, gaf honum 200 dollara, klappaði honum á bakið og sagði í hæðnistón: " Rosalega líturðu vel út". Það er skemmst frá því að segja að Miles lét renna af sér hið snarasta.
Tónlistarmaðurinn Max Roach var miklu meira en trommari þó að frammistaða hans á því sviði hefði alveg nægt til öruggrar stöðu í uppflettiritum jazzins. Hann lærði tónsmíðar og samdi þegar mikið af músíkinni á plötum sínum á seinni hluta 6. áratugarins. Plus 4 og síðar hin magnaða Freedom Now svíta eru meðal þeirra sem koma upp í hugann. Svo má ekki gleyma Drums Unlimited þar sem Max Roach kynnti fyrstur manna tónsmíðar fyrir trommusett. Ekki hið hefðbundna trommusóló sem hluti af lagi heldur sem heilsteypta tónsmíð. For Big Sid var og er tímamótasmíð. Þar setur hann fram einfalt stef sem hann tileinkar Sid Catlett fyrirrennara sínum og vinnur svo úr því þannig að maður heyrir ryþmann færast til í taktinum og um leið finnst manni maður skilja hvernig afrískar rætur jazzins eru enn til staðar.
Max er allur. Það er nú ekki oft sem maður lætur hafa áhrif á sig þegar harðfullorðnir listamenn sem maður þekkir bara af plötum kveðja þetta líf. En stundum hellist yfir mann .....þakklæti.
Ekki meir...ég þarf að tengja plötuspilarann.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)