Færsluflokkur: Tónlist
22.8.2007 | 22:45
Vika í downbeat
Um þetta leyti eftir rétta viku verður hálfnaður fyrsti skammtur af lögunum hans Jóns Múla sem Eyþór Gunnarsson er að undirbúa fyrir tónleika á Domo. Það verða líka nýbúnir tónleikar Uri Caine í Austurbæ. Fólk verður farið að yfirbjóða í miða á tónleika Eivarar og Stórsveitar Reykjavíkur kvöldið eftir, og allskonar fólk verður í talhólfinu mínu að reyna að grenja út miða á atburði Jazzhátíðarinnar.
Ég veit auðvitað ekkert um það hvort þetta heldur svona áfram, en miðasalan fer vel af stað og viðbrögðin eru umfram væntingar enn sem komið er. Vonandi er maður ekki að kalla yfir þetta einhverja bölvun með því að nefna það á nafn. Það má ekki segja nafn Macbeths í leikhúsinu. Hver ætli sé samsvörun hans á jazzklúbbnum. Morðóð skáldsagnapersóna. Mér dettur helst í hug kallinn sem skaut Kenny Dorham. En ég veit ekki hvað hann heitir og svo var hann víst alvöru persóna. Því miður.
En við erum með listamenn af holdi og blóði sem betur fer, og eins og þegar hefur verið auglýst verður öll tónlist handspiluð. Eftir því sem næst verður komist er enginn listamannanna með undirleik af geisladiski. Svo benti Sammi á það í dag að þetta væri fyrsta reyklausa jazzhátíðin á Íslandi, ef ekki í heiminum.
Það skal upplýst hér að meðal þeirra sem koma fram á tónleikum í Ráðhúsinu á lokadegi hátíðarinnar eru Hilmar Jensson sem ætlar að frumflytja músík sem hann hefur verið að semja fyrir væntanlega Kínaferð. Einnig munu Óskar og Ómar Guðjónssynir tefla fram eigin hljómsveitum og spila nýja músík. Ekki er loku fyrir það skotið að Ingibjörg systir þeirri verði meðal gesta. Svo eru einhverjir leynigestir á skipuriti þeirra tónleika sem verða ókeypis auk þess að gestum og gangandi verður boðið upp á veitingar í boði ölgerðarinnar Egils Skallagrímssonar.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2007 | 18:15
8 dagar í Jazzhátíð
Ég gladdist fram eftir degi yfir því að Ölgerð Egils Skallagrímssonar kom inn í Jazzhátíðina með okkur. Ég held svei mér þá að ég skelli í mig einum svellköldum Premium í kvöld í tilefni þess. Svo auðvitað Kristal.
Og það er ekki allt því að Eymundsson, þið vitið Penninn/Eymundsson ( svona eins og Bond, James Bond ) skellti sér líka í slaginn svo að það verður jazzað í bókabúðum bæði í Austurstræti og við Laugaveg á næstunni. Ætli ég taki mér ekki bók í hönd með Premium-inum í kvöld og lesi um jazz. Maður veit svo lítið um hann.
Og þessi fáviska um jazzinn og tónlist yfirleitt leiðir hugann að því að ég átti einmitt stefnumót við tvær músíkalskar dömur í útvarpshúsinu fyrr í dag, en við Steinunn Birna Ragnarsdóttir ætlum að vera rosalega skemmtileg í spurningaleik um tónlist sem Arndís Björk Ásgeirsdóttir ætlar að stjórna á Rás 1 í vetur. Við fórum semsagt í myndatöku útaf því. Myndatöku fyrir útvarp! En hafið ekki áhyggjur. Það verða fleiri gestir og þeir vita alveg örugglega heilmikið um músík!
Svo fór ég niður á DOMO bar og bar saman bækur mínar við bækurnar hans Mána, sem er aðal þar. Við verðum með setningu Jazzhátíðar hjá honum þriðjudagskvöld eftir viku. Stutt og laggott tækifæri fyrir listamenn, fjölmiðla og styrktaraðila til að hittast og æsa hvorn annan upp fyrir hátíðina.
Þar fyrir utan var mikið pælt í hvaða blað fengi að birta fínu auglýsingarnar sem Edda og Haukur hja Forte eru búin að hanna.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2007 | 20:11
9 dagar
Það eru níu dagar nákvæmlega þangað til Uri Caine stígur á svið með þeim Drew Gress og Ben Perowsky í Austurbæ og hefur þannig Jazzhátíð 2007.
Það er reyndar eitthvað aðeins styttra þangað til við setjum hátíðina formlega en það verður kynnt eftir nokkra daga hvar og hvenær það fer fram.
Annars er alltaf eitthvað að gerast skemmtilegt í þessum undirbúningi. Þeir hjá Ölgerð Egils Skallagrímssonar ætla að vera okkur innan handar þetta árið enda áratuga hefð fyrir tengslum afurða þeirra og jazzins í heiminum.
Svo er líka að skýrast hvort við náum hingað heim bíómyndinni um Thelonious Monk, þann sérstaka píanókall, en myndin er eftir Charlotte Zwerin og er frá 1988 með fullt af flottum gömlum tónleikaskotum. Það er yfirlýst stefna Jazzhátíðar að auka hlut kvikmyndanna í hátíðarhöldum sínum og kunnum við Gunnari T Eggertssyni hjá kvikmyndahátíð bestu þakkir fyrir sérlega óeigingjarnt starf til að gera þetta að veruleika. Það er flóknara að díla við Hollívúdd en alla íslenska jazzleikara til samans.
Þess má líka geta að jazzbræðurnir Ómar og Óskar Guðjónssynir verða í stórum hlutverkum á tónleikum okkar í Ráðhúsinu 1. sept. á lokadegi Jazzhátíðar. Þá verður auk þeirra bræðra teflt fram óvæntum atriðum og allt tekið upp á myndband fyrir væntanlegan sjónvarpsþátt um hátíðina.
Ekki gleyma miðasölunni á midi.is
Tónlist | Breytt 21.8.2007 kl. 10:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.8.2007 | 13:14
Minning um meistaratrommara
Þegar ég í hégóma mínum fór inn á moggabloggið til að sjá hvort fyrsta færslan mín hefði birst ólöskuð, rak ég augun í það að meistaratrommarinn Max Roach væri allur, 83 ára gamall. Max er einn af fimm trommurum jazzsögunnar sem ekki er hægt að gera upp á milli. Þeir sem eru ekki með Max á sínum topp fimm lista eru einfaldlega að missa af ótrúlega stórum hluta þeirrar merkilegu sögu. Hann var oftar en ekki sá sem hvatti áfram Dizzy og Bird þegar þeir voru að finna upp bophjólið í félagsskap sem taldi Bud Powell, Miles Davis og fleiri stórmenni sem óþarfi er að telja upp.
Ef mæla á með einhverju einstöku úr safni Max Roach þá man ég í svipinn eftir tónleikaupptöku með hljómsveit hans og Cliffords Brown frá París 1953. Svíngið á þeim Evróputúr er nægilegt til að núllstilla hvaða tréhest sem er til skilnings á hugtakinu. Max Roach var líka merkilegur leiðtogi í sínum hóp. Ávallt mikill reglumaður og fræg er sagan þegar hann lét Miles Davis skammast sín til að hætta að sulla í heróíni, en Max horfði beint inn í blóðhlaupin augu trompetleikarans, gaf honum 200 dollara, klappaði honum á bakið og sagði í hæðnistón: " Rosalega líturðu vel út". Það er skemmst frá því að segja að Miles lét renna af sér hið snarasta.
Tónlistarmaðurinn Max Roach var miklu meira en trommari þó að frammistaða hans á því sviði hefði alveg nægt til öruggrar stöðu í uppflettiritum jazzins. Hann lærði tónsmíðar og samdi þegar mikið af músíkinni á plötum sínum á seinni hluta 6. áratugarins. Plus 4 og síðar hin magnaða Freedom Now svíta eru meðal þeirra sem koma upp í hugann. Svo má ekki gleyma Drums Unlimited þar sem Max Roach kynnti fyrstur manna tónsmíðar fyrir trommusett. Ekki hið hefðbundna trommusóló sem hluti af lagi heldur sem heilsteypta tónsmíð. For Big Sid var og er tímamótasmíð. Þar setur hann fram einfalt stef sem hann tileinkar Sid Catlett fyrirrennara sínum og vinnur svo úr því þannig að maður heyrir ryþmann færast til í taktinum og um leið finnst manni maður skilja hvernig afrískar rætur jazzins eru enn til staðar.
Max er allur. Það er nú ekki oft sem maður lætur hafa áhrif á sig þegar harðfullorðnir listamenn sem maður þekkir bara af plötum kveðja þetta líf. En stundum hellist yfir mann .....þakklæti.
Ekki meir...ég þarf að tengja plötuspilarann.
Tónlist | Breytt s.d. kl. 13:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.8.2007 | 12:43
Talið niður
Þá er menningarnóttin liðin. Sunnudagsfréttirnar í útvarpinu algerlega fyrirsjáanlegar - " Talsverð ölvun " og svo viðtal við hreinsunardeildina. Vonandi verða þeir búnir að sópa fyrir Jazzhátíð Reykjavíkur. Þeir hafa 10 daga.
Annars ætla ég að manna mig uppí að skrifa daglega um framvindu jazzhátíðar...maður er jú stjóri...! Allir vita auðvitað hvað verður á seyði þessa daga frá 29. ágúst nk til 1. sept. Frikki búinn að setja dagskrána inná vefinn og Edda og Haukur hjá Forte komin með nýtt lógó. Miðarnir komnir í sölu á midi.is, reyndar á svo rosalegum tilboðum að maður hálfpartinn vonar að fólk kaupi þá frekar á síðustu stundu á fullu verði. Icelandair búið að bóka alla í flug og allt undir kontról. Semsagt gott! Þá er bara að fylla tónleikastaðina af áhugsömu fólki. Smámál sem ætti ekki að vera vandamál þegar haft er í huga að meginþorri höfuðborgarbúa er í toppformi til að taka þátt í spennandi tónleikaupplifunum.
Tónlist | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)