14.3.2008 | 16:45
Hlustað eftir dagatali
Þú ert þegar orðin(n) of sein(n) ef þú ætlar að hlusta á alla tónlistina sem var lögð fyrir dómnefndir íslensku tónlistarverðlaunann þetta árið. Það er semsagt of seint ef þú ætlar að ná því áður en úrslit verða tilkynnt. Til þess þarftu nákvæmlega fjóra sólarhringa, 15 klukkustundir, þrettán mínútur og átta sekúndur. En þetta eru líka 1653 kaflar úr verkum eða lög.
Svona er nú framleiðnin í góðum gír í íslenskri tónlist. Úr þessum bunka er verið að finna það besta og frambærilegasta og í góðæri eins og því sem ríkir á þessum vettvangi er þeim sem velja nokkur vandi á höndum. Tilnefningarnar hafa legið fyrir í uþb mánuð og niðurstöðunum fögnum við saman í Borgarleikhúsinu nk þriðjudagskvöld kl 19.30. Það er Samtónn sem býður í partíið.
Verðlaun í listum eru ávallt umdeild og kemur það sjálfsagt til af því keppnin sjálf er ekki háð neinum leikreglum. Reglurnar sem dómnefndir fara eftir eru þessvegna almenns eðlis og mælst til að þær noti víðtækt innsæi sitt og yfirsýn til að komast að niðurstöðum. Tónlistarverðlaunin keppast sjálf við að finna módelið sem virkar og hika ekki við að breyta fyrirkomulagi frá ári til árs til að freista þess að komast einhvern daginn nálægt því að fullkomna fyrirbærið. Dómnefndarfólk er alls 16 talsins og er það nokkuð færra en hefur verið áður. Hugmyndin þar að baki er sú að fólk finni til enn meiri ábyrgðar gagnvart verkefninu.
Það kom fram að fólk væri orðið of seint ef það ætlaði að kynna sér alla íslensku tónlistina sem lögð var fram fyrir síðasta ár. Það er þó ekki of seint að ná þokkalegri mynd af þeim sem eru tilnefndir til verðlaunanna. Til þess þarf ekki nema tæpan sólarhring eða 23 klukkustundir 17 mínútur og 24 sekúndur. Ekki nema 309 lög eða verkkaflar sem dómnefndir eru búnar að velja til úrslita. Það nægir td að byrja að hlusta á það nk mánudagskvöld til að vera búinn í þann mund sem athöfnin hefst í anddyri Borgarleikhússin kl 19.30 á þriðjudag. Góða skemmtun.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Dægurmál, Menning og listir, Tónlist | Breytt s.d. kl. 16:48 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.