Jazz og ekki jazz

Það er alltaf frískandi þegar fólk hefur skoðanir á hlutunum. Ekki síst á tónlistinni. Jazzhátíðarstjóri ber þá ósk í brjósti að sem flestir hafi skoðun á jazzinum sem boðið er uppá á Jazzhátíð Reykjavíkur. Nú þegar hátíðin er hálfnuð hafa borist margar góðar kveðjur og ánægjuraddir hafa hljómað um Reykjavíkurjazzinn sem af er.
Nokkrir hafa komið að máli við mig og lýst þeirri skoðun sinni að gjörningur Hilmars Jenssonar og Marc Ducret ásamt Jim Black hafi átt lítið skylt við jazzgítarleik. Langflestir hafa nefnt þetta uppveðraðir af hrifningu, sumir minna hrifnir og nokkrir hreint út sagt óánægðir. Mitt svar hefur verið að í húsi jazzins séu mörg herbergi og í Reykjavíkurhúsi jazzins sé stefnan sú að opna þau sem flest frekar en troða öllum í sama rýmið.
Það verður seint komið á móts við allar væntingar um hvað sé jazz, en það má lengi reyna. Það gleður meira en orð fá lýst að upplifa ánægju fólks yfir því að tekist hafi að koma því á óvart. Vonandi verður Jazzhátíðin í heild til að sýna hinum sem var ofboðið fram á að í fjölbreytninni felst mikilvægt innleg í sýn okkar allra á um hvað svona hátíð snýst.
Næstkomandi laugardag verður norski trompetleikarinn Arve Henriksen gestur Jazzhátíðar. Arve kemur fram ásamt raftónlistarmanninum Jan Bang og sópran söngkonunni Önnu Maríu Fríman. Þeirra tónlist á vonandi eftir að koma á óvart, en þar er á ferðinn ákafleg áheyrileg blanda tónefnis úr ólíklegustu áttum. Sérlega falleg músík og margræð.

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband