Færsluflokkur: Bloggar

Jazz og ekki jazz

Það er alltaf frískandi þegar fólk hefur skoðanir á hlutunum. Ekki síst á tónlistinni. Jazzhátíðarstjóri ber þá ósk í brjósti að sem flestir hafi skoðun á jazzinum sem boðið er uppá á Jazzhátíð Reykjavíkur. Nú þegar hátíðin er hálfnuð hafa borist margar góðar kveðjur og ánægjuraddir hafa hljómað um Reykjavíkurjazzinn sem af er.
Nokkrir hafa komið að máli við mig og lýst þeirri skoðun sinni að gjörningur Hilmars Jenssonar og Marc Ducret ásamt Jim Black hafi átt lítið skylt við jazzgítarleik. Langflestir hafa nefnt þetta uppveðraðir af hrifningu, sumir minna hrifnir og nokkrir hreint út sagt óánægðir. Mitt svar hefur verið að í húsi jazzins séu mörg herbergi og í Reykjavíkurhúsi jazzins sé stefnan sú að opna þau sem flest frekar en troða öllum í sama rýmið.
Það verður seint komið á móts við allar væntingar um hvað sé jazz, en það má lengi reyna. Það gleður meira en orð fá lýst að upplifa ánægju fólks yfir því að tekist hafi að koma því á óvart. Vonandi verður Jazzhátíðin í heild til að sýna hinum sem var ofboðið fram á að í fjölbreytninni felst mikilvægt innleg í sýn okkar allra á um hvað svona hátíð snýst.
Næstkomandi laugardag verður norski trompetleikarinn Arve Henriksen gestur Jazzhátíðar. Arve kemur fram ásamt raftónlistarmanninum Jan Bang og sópran söngkonunni Önnu Maríu Fríman. Þeirra tónlist á vonandi eftir að koma á óvart, en þar er á ferðinn ákafleg áheyrileg blanda tónefnis úr ólíklegustu áttum. Sérlega falleg músík og margræð.

Hlustað eftir dagatali

Þú ert þegar orðin(n) of sein(n) ef þú ætlar að hlusta á alla tónlistina sem var lögð fyrir dómnefndir íslensku tónlistarverðlaunann þetta árið.  Það er semsagt of seint ef þú ætlar að ná því áður en úrslit verða tilkynnt.  Til þess þarftu nákvæmlega fjóra sólarhringa, 15 klukkustundir, þrettán mínútur og átta sekúndur.  En þetta eru líka 1653 kaflar úr verkum eða lög. 

Svona er nú framleiðnin í góðum gír í íslenskri tónlist.  Úr þessum bunka er verið að finna það besta og frambærilegasta og í góðæri eins og því sem ríkir á þessum vettvangi er þeim sem velja nokkur vandi á höndum.  Tilnefningarnar hafa legið fyrir í uþb mánuð og niðurstöðunum fögnum við saman í Borgarleikhúsinu nk þriðjudagskvöld kl 19.30.  Það er Samtónn sem býður í partíið. 

Verðlaun í listum eru ávallt umdeild og kemur það sjálfsagt til af því keppnin sjálf er ekki háð neinum leikreglum.  Reglurnar sem dómnefndir fara eftir eru þessvegna almenns eðlis og mælst til að þær noti víðtækt innsæi sitt og yfirsýn til að komast að niðurstöðum.  Tónlistarverðlaunin keppast sjálf við að finna módelið sem virkar og hika ekki við að breyta fyrirkomulagi frá ári til árs til að freista þess að komast einhvern daginn nálægt því að fullkomna fyrirbærið.  Dómnefndarfólk er alls 16 talsins og er það nokkuð færra en hefur verið áður.  Hugmyndin þar að baki er sú að fólk finni til enn meiri ábyrgðar gagnvart verkefninu.

Það kom fram að fólk væri orðið of seint ef það ætlaði að kynna sér alla íslensku tónlistina sem lögð var fram fyrir síðasta ár.  Það er þó ekki of seint að ná þokkalegri mynd af þeim sem eru tilnefndir til verðlaunanna.  Til þess þarf ekki nema tæpan sólarhring eða 23 klukkustundir 17 mínútur og 24 sekúndur.  Ekki nema 309 lög eða verkkaflar sem dómnefndir eru búnar að velja til úrslita.  Það nægir td að byrja að hlusta á það nk mánudagskvöld til að vera búinn í þann mund sem athöfnin hefst í anddyri Borgarleikhússin kl 19.30 á þriðjudag.  Góða skemmtun. 


Jazzhátíðarlok

Hætta ber leik þá hæst hann stendur.  Þessum frasa var stundum baunað á mann í gamla daga þegar galskapurinn stefndi í einhverjar ófyrirséðar áttir.  Eftir skellihlátur kemur gjarnan harmagrátur - var annar.  Ég held reyndar að þetta séu óttalegar kellingabækur og það eina sem eigi að fara varlega í sé að hefta hátíðarskapið með of miklum fyrirvörum.  

Þessari niðurstöðu komst ég að eftir Jazzhátíðina og hinn ótrúlega hápunkt hennar á laugardagskvöldið var, þegar Sammi og Antibalas vögguðu fullum sal á Nasa í seiðmögnuðum takti langt fram á nótt.  Það er raunar magnað hvernig hátíðin magnaðist kvöld eftir kvöld.  Ég er sannfærður um að Uri Caine tríóið hafi gefið þessu hið rafmagnaða start sem dugði í fjóra daga.  Fullt hús á þremur stöðum daginn eftir og það sem eftir var.  Gítarveisla Bjössa Thor sameinaði bæði skemmtilega kvöldstund og alvöru músík þrátt fyrir að hljóðfærasirkusar þurfi oft að takast á við þá kreddu að þeir séu skyldari kraftlyftingamótum eða kappökstrum.  Ekki þessi, þetta voru ótrúlega skemmtilegir tónleikar.  Það er líka mikil og góð innspýting í íslenskt jazzlíf að báðir útgáfutónleikar Dimmu á Jazzhátíð skyldu fylla húsið.  En Siggi Flosa og Agnar Már eru með frábærar plötur svo að þetta ætti kannski ekki að koma á óvart. 

Ég er búinn að vera fullur síðan á laugardaginn.  Fullur af þakklæti til þeirra sem gera okkur kleyft að halda glæsilega jazzhátíð.  Reykjavíkurborg, Icelandair, Saga Capital, Eymundsson, Ölgerðinni, FÍH, Tónastöðinni, GuðjónÓ og auglýsingastofunni Forte.   En það má ekki heldur gleyma því að eins þakklátur og maður er fyrir allan stuðninginn þá ber fyrst og fremst að þakka þeim listamönnum sem  setja upp glæsilega tónleika fyrir fólkið í borginni og alla þá sem tengjast okkur í gegnum beinar útsendingar Rásar Eitt. 

Það er þegar hafinn undirbúningur að næstu jazzhátíð.  Hún verður haldin síðustu viku ágústmánaðar 2008 og verður vonandi enn glæsilegri en þessi.   


Síðasti jazzsjéns!

Jú þetta virðist vera að smella.  Síðasti dagur runninn upp og Antibalas menn hvíla sig í Reykjavík fyrir átök kvöldsins.  Larry Coryell og frú farin heim eftir stutta heimsókn og skemmtilegt kvöld á Nasa. Coryell var ánægður með íslenska liðið og fór fögrum orðum um hvern og einn.  Óskiljanlegt hvernig hann gat munað öll nöfnin og rutt út úr sér greiningu á gítarleik hvers og eins.  Siggi Flosa fyllti líka Iðnó eins og Agnar Már á fimmtudaginn.  Það þarf ekki einu sinni að nefna Eivöru. Stórsveitin var frábær, ég held ég hafi aldrei heyrt hana eins þétta.  Fullt hús fullt hús fullt hús fullt hús fullt hús. 

Þá eigum við bara eftir að fylla húsið í kvöld.  Sammi og stórsveit hans.  Jimi Tenor.  Antibalas.  Það verður ekkert betra.  Ef okkur tekst að fylla kofann þá erum við með tímamótahátíð.  Ótrúleg viðbrögð borgarbúa blása sannarlega vindi í seglin.  Miklar pælingar þegar komnar af stað varðandi hátíðina að ári.  

En fyrst er að mæta á markaðstorg jazzins í Ráðhúsinu í dag kl 13.  Andrea og Ragnheiður Gröndal ætla syngja og Bjössi Thor, Hilmar Jensson, Siggi Flosa og þeirra frábæru meðreiðarsveinar ætla að spila.  Útgefendur verða með plöturnar sínar og Ölgerðin með vatnið og gosið.  Ókeypis inn alveg eins og á Jómfrúnni hjá Jakobi þar sem Egill B spilar með sínum mönnum kl 15. 

Icelandair, Saga Capital, Ölgerðin Egill Skallagrímsson, Eymundsson, Guðjónó, Tónastöðin.  Frábærir bakhjarlar Jazzhátíðar.  Og hryggjarstykkið sjálft er eftir sem áður Reykjavíkurborg.

Ég datt út úr blogginu og missti því að því að ég hafði með ónærgætni minni stuðað vopnabróður minn Magga trymbil.  Það hefur kannski einhver gaman af því að skoða það á netinu.  Fjaðrafok út af miðaverði.  Ég biðst afsökunar ef ég var dónalegur.  Það var alveg óþarfi.  Ég las ekki einu sinni bloggið hjá honum, heldur sá bara vitnað í það í Blaðinu.  Fannst hann frekar pirraður út af litlu tilefni og hvað sem menn segja þá kostaði passinn á hátíðina 10500 þegar þetta var í gangi.  Það er hinsvegar upphrópunin sem maður bregst við.  Ef menn æpa þá er æpt á móti.  Þýðir ekki að grenja þó maður hafi ekki hæst.

 

 


Einn...

...voða vitlaus, hugsaði ég þegar ég rak augun á það aftan á Blaðinu að einhver bloggari væri að kvarta yfir miðaverði á Jazzhátíð.  "Hvaða heilvita maður borgar 21000 fyrir passa á alla atburði ?" var haft eftir honum.  Ekki þú hálfvitinn þinn, hugsaði ég, en sagði auðvitað ekkert því ég er framkvæmdastjóri hátíðarinnar og maður í minni stöðu getur ekki sagt svona við fólk sem kann ekki að lesa.  En ég finn enga aðra skýringu á þessum misskilningi.  Passinn er ekki einu sinni til sölu á tuttuguogeittþúsund.  Hann kostar tíuogfimm!  Það er málið.  Annars er þetta vonandi sá eini sem hefur ekki fattað plottið svo að það útaf fyrir sig er ágætis árangur.  

Gærdagurinn var klikkaður.  Ef ég hefði ekki hjólað einn hring með Kjartani hefði áreiðanlega þrotið súrefnið fyrir hádegi.  Það þurfti að koma út pössum og sækja miða.  Tala um Max Roach í Víðsjá og gera hlépakka fyrir Uri tónleikana með Lönu.  Síðan sótti ég Eivöru á flugvöllinn og á meðan hún kom sér fyrir þurfti að huga að aðstæðum á tónleikastöðum.  Síðan fór hún á æfingu með stórsveitinni og ég fór í viðtal á Rás 2, og náði þá þeim eftirsóknarverða áfanga að vera á báðum rásum samtímis, því Haukur var að senda út pistilinn um Max Roach á Gufunni.

Jazzhátíðin er byrjuð.  Hún hófst með ótrúlega skemmtilegu partíi á DOMO í gærkvöldi.  Þar lék hljómsveitin Jazz Festival All Stars, sem skipuð var Ómari, Helga Svavari, Valda Kolla, Ingimar og Samma.  Síðan bættust Haukur og Andrea og undir lokin Ragnheiður í hópinn.  Eivör söng með okkur Edda Lár og DJ Lucky sneri Blúnót plötum.  Kjartan Magnússon borgarfulltrúi setti hátíðina formlega  áður en þessi spontant jamsession tók við og við erum því komin í gang.  Ekki má heldur gleyma að fyrrverandi framkvæmdastjóri Friðrik Tehodorsson skvíbbaði Summertime með Allstars í lokin og hækkaði þarmeð umtalsvert viðmiðunarstuðul eftirmanna sinna í framkvæmd jazzhátíðar.  Hvílíkt stuð!

Í morgun kom svo Kristján bílstjóri úr Keflavík með Uri, Drew og Ben í bæinn og þeir eru komnir inn á hótel í miðbænum og safna kröftum fyrir kvöldið.  Austurbær kl 20.  Bíðer or bískver!

Jerry Bergonzi og Gerry konan hans eru líka komin og voru í partíinu í gærkvöldi.  Ákaflega sjarmerandi og skemmtilegt fólk.  Jerry er alsæll eftir æfinguna með Eyþóri og félögum og hlakkar til að skemmta á DOMO í kvöld.  

 Ekki gleyma bíóinu.  Tjarnarbíó klukkan fimm!  Monk - Straight No Chaser.  Í boði Jazzhátíðar. 

 Er það ekki dáldið góður dagur?  Bíó klukkan fimm, konsert með Uri klukkan átta, Múlinn á Múlanum  og Jerry Bergonzi klukkan tíu.  Og inn á milli upplyfting að eigin vali.


Þrír, tveir...

...og svo kemur óumflýjanlega: Einn!  Ekki fyrr en á miðvikudag þó að þjófstartið sé þegar ákveðið annað kvöld kl 21.  Það verður án efa ógleymanleg stund.  Leynigestir af tónlistarsviðinu hafa eihverntíma verið kallaðir Sniglaband jazzins.  Ég kýs að kalla þá Snillaband jazzins, en það kemur í ljós anað kvöld um hverja ræðir.  

Borgarstjóri ætlar að setja fyrir okkur hátíðina og svo fara allir heim og hvíla sig vel fyrir næstu fjóra daga.  Það verður að gera þetta skynsamlega.  Það er skynsemin sem vantar í þann hluta næturlífsins sem er með þetta vesen í miðbænum.  Örfáir gaurar sem ætla að skemmta sér svo rosalega að vonbrigðin verða ennþá rosalegri þegar kemur í ljós að það er ekkert gaman.   Það er nefnilega svo lítið varið í að vera bara fullur.  Að vera fullur er eins og meðlæti eða skartgripur.  Punkturinn yfir i-ið.  Eitt sér er það einhvernveginn bara glatað.  Eins og að borða bara kartöflur eða vera bara með hálsmen, en ekki í neinu öðru.  Kannski ekki vonlaust, en í það minnsta vandmeðfarið.  Semsagt.  Jazzhátíð Reykjavíkur mælir með því að ganga um gleðinnar dyr á því tempói sem hverjum og einum hæfir.  Og þá helst um þær dyr sem ganga að atburðum hátíðarinnar. 

Ég gleymdi hreinlega að blogga í gærkvöldi og nú er kominn mánudagsmorgunn og Siggi Flosa í blöðunum.  Lognið á undan storminum.  Trommur í fjarska sem færast nær...og nær... og nær... og svo kemur bassasóló.  Sem minnir mig á það að nú tekur við þetta áþreifanlega: redda bassamagnara, redda trommusetti, redda svörtu handklæði og sódavatni sem er búið að hrista helminginn af kolsýrunni úr....bara þessa einföldu hluti sem allir listamenn þurfa að ganga að sem vísum.

 

 


Fjórir á gólfinu

Þeir kölluðu það fjóra á gólfinu gömlu mennirnir sem þurftu að berja út bassatrommuna á öllum fjórum slögum taktsins í foxtrottinum.  Þetta gerðu þeir til þess að hjálpa kontrabassanum að ná í gegn á böllunum.  Seinni tíma meistarar þessa stíls sem gerðu þetta að listgrein voru þó nokkrir og fremstur meðal jafningja var Joe Morello sem sló snjóhvítan taktinn í tímatökunni hjá Dave Brubeck.  

Þessi litla fróðleiksperla er í boði Jazzhátíðar Reykjavíkur í tilefni þess að fjórir dagar eru þangað til hátíðin hefst.  Þú sem ert að lesa þetta ert boðinn á setningu hátíðarinnar á Domo bar við Þingholtsstræti 5 nk þriðjudagskvöld kl 21, en þá ætlar borgarstjóri að setja hátíðina.  Lifandi jazz og svellkaldur Premium frá Ölgerðinni. 

 Laugardagurinn var til lukku í Jazzheimum en talsverð pressa var tileinkuð jazzinum í dag og svo var verið að spila í verslunum Eymundsson og á Jómfrúnni.  Við dreifðum dagskrám og buðum í partíið, en það var gaman að sjá eftirvæntingarglampann í augum stórsveitarliða þar sem þeir renndu sér í gegnum þetta gamla og góða með einbeitingu sem sá einn nær sem á vísan ákavítissjúss og rauðsprettusneið.  Andrea , Bjössi Thor og Jón Rafnsson stóðu svo vaktina í bókabúðunum og vöktu athygli á eigin geisladiski og væntanlegri jazzhátíð.  

Svíngídígíngídísvíngídígingídísvíngídígíngídísvíngídígong.


Fimm mínútur í

Undanfarnar vikur hefur oft verið slegið fram frasanum "korter í".  Það þýðir ekkert að gera þetta  korter í.  Þeir sem koma svona korter í fá lítið eða ekkert af því sem þeir biðja um.  Korter í hátíð.  Korter í þetta, korter í hitt.  En nú er ekkert korter í.  Það eru sko fimm mínútur í.  Og þá fara nú hlutirnir að gerast.  Þetta var dagur fimm mínútnanna.  Fyrst var auðvitað hjólatúrinn.  Fimm mínútur í sjö var Kjartan mættur og við tókum hjólhestana til kostanna.  Við höfum skírt túrana eftir leiðunum sem við förum.  Þeir hafa verið stuttir undanfarna daga og þessi fékk nafnið "Sollur special" þegar við hjóluðum niður Bankastrætið.  Það var nú dáldið kosmópólítan og smart að sjá að kaffihúsin voru opin. 

Kjartan fór heim og kom stelpunum í skólann en ég gerði útvarpsauglýsingar sem ég vona að hafi heyrst.  Svo tók ég stöðuna á prentverkinu sem var allt komið á góðan rekspöl.  Valli Plakat kominn í málið og bæklingurinn á leiðinni.  Boðskort á setninguna tilbúið og ekkert annað í stöðunni en dreifa því á sem flesta vini jazzhátíðarinnar fyrir partíið nk þriðjudagskvöld á Domo.  Ölgerðin Egill Skallagrímsson ætlar að splæsa.  

Ríkisútvarpið var áfangastaðurinn í hádeginu en við Lana gátum borið saman bækur okkar um væntanlegar útsendingar frá tónleikum Jazzhátíðar.  Svo tók við þátturinn hennar Hönnu G þar sem glöggir hlustendur sáu við okkur og unnu miða á hátíðina. 

Bjarni Rúnar tónmeistari var á svæðinu og eins og alltaf þegar góðir menn verða á vegi manns þá varð það til að við komumst að þeirri niðurstöðu að Uri þyrfti að fá almennilegan flygil til að spila á.  Við ætlum að nota stóra útvarpsSteinwayinn sem situr á Markúsartorginu og bíður eftir að verða hleypt á skeið.  

Ég læddist í 12 tóna og heyrði Ólöfu Arnalds syngja nokkur lög og bókaði Lárus til að kynna afurðir sínar í Ráðhúsinu þann 1. sept.  Hitti líka Ása (í Smekkleysu) í Máli og Menningu og hann ætlaði að senda einhvern frá sér á sama stað.  Spessi var að gefa út nýja ljósmyndabók og var að kynna hana í búðinni.  Jólagjöfin í ár.  

Hún liggur vel í manni Jazzhátíðin.  Eini kvíðapunkturinn er hvort hin alræmda kvikmynd um Monk nær til landsins í tæka tíð.  Hún á að vera farin frá London, en ég trúi því þegar ég sit í Tjarnarbíói og horfi á hana.  

Hlaupanótan spilaði jazz og sagði frá af mikilli list.  Allt í fína þar og undir kvöldmat spannst umræða á smessi um að networka Uri Caine inn í músíkmafíuna hérlendis.  Hringdi í hann.  Hann var í stuði! 

Svíngdíngeríngdíngeríng.


Sex selur...

...hef ég heyrt fleygt.  Ekki síst þessa síðustu daga þegar við höfum verið að vinna í að hámarka afköst auglýsingapeninganna fyrir Jazzhátíð Reykjavíkur.  Hvort það selur að einungis eru sex dagar í hátíðina á eftir að koma í ljós þegar gróðanum verður skipt því að það verður auðvitað boðið upp á ótrúlega sexí tónlist dagana fjóra frá 29. ágúst nk til 1. sept.  Reyndar hef ég fundið það eftir að ég fékk Antibalas plöturnar í póstinum að það er ekki laust við að maður verði dáldið ( meira ) sexí við að hlusta á þær.  Þetta er kjarngott og seiðandi afróbít sem á örugglega eftir að hitta á mark á Nasa í næstu viku.  

Er það ekki ótrúlegt annars að ekki skuli vera meira úrval af Antibalas og Jimi Tenor í plötubúðunum í Reykjavík þegar legið hefur fyrir vikum saman að þessir frábæru listamenn séu á leið hingað.  Ég náði í síðasta eintakið af High Plains plötunni hans Jimi Tenor í Skífunni og ekkert var til með öðrum gestum Jazzhátíðarinnar þetta árið.   Guði sé lof fyrir Amazon.com. Nú getum við farið að dæla þessu út um öldur ljósvakans svo hinn almenni útvarpshlustandi missi ekki af tækifærinu til að heyra alvöru músík leikna af alvöru fólki.  

Dagurinn var hinn ágætasti og prentvélarnar eru farnar að mala og plakötin á leið upp á veggi og í sjónlínur úti um allan bæ.   Selur sexið?  Ekki gott að segja.  Við spyrjum að leikslokum þegar ip tölurnar eru komnar í hús og allt þetta kynþokkafulla fólk hefur sungið sitt síðasta þetta árið.


8 dagar í Jazzhátíð

Ég gladdist fram eftir degi yfir því að Ölgerð Egils Skallagrímssonar kom inn í Jazzhátíðina með okkur.  Ég held svei mér þá að ég skelli í mig einum svellköldum Premium í kvöld í tilefni þess.  Svo auðvitað Kristal. 

Og það er ekki allt því að Eymundsson, þið vitið Penninn/Eymundsson ( svona eins og Bond, James Bond ) skellti sér líka í slaginn svo að það verður jazzað í bókabúðum bæði í Austurstræti og við Laugaveg á næstunni.  Ætli ég taki mér ekki bók í hönd með Premium-inum í kvöld og lesi um jazz.  Maður veit svo lítið um hann. 

Og þessi fáviska um jazzinn og tónlist yfirleitt leiðir hugann að því að ég átti einmitt stefnumót við tvær músíkalskar dömur í útvarpshúsinu fyrr í dag, en við Steinunn Birna Ragnarsdóttir ætlum að vera rosalega skemmtileg í spurningaleik um tónlist sem Arndís Björk Ásgeirsdóttir ætlar að stjórna á Rás 1 í vetur.  Við fórum semsagt í myndatöku útaf því.  Myndatöku fyrir útvarp!  En hafið ekki áhyggjur.  Það verða fleiri gestir og þeir vita alveg örugglega heilmikið um músík!

Svo fór ég niður á DOMO bar og bar saman bækur mínar við bækurnar hans Mána, sem er aðal þar.  Við verðum með setningu Jazzhátíðar hjá honum þriðjudagskvöld eftir viku.  Stutt og laggott tækifæri fyrir listamenn, fjölmiðla og styrktaraðila til að hittast og æsa hvorn annan upp fyrir hátíðina.

Þar fyrir utan var mikið pælt í hvaða blað fengi að birta fínu auglýsingarnar sem Edda og Haukur hja Forte eru búin að hanna.

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband